Ferilskrá
Dr. Guðni Th. Jóhannesson
Hugvísindasvið Háskóla Íslands.
Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði.
Námsferill
- 1991, BA próf í sagnfræði og stjórnmálafræði, University of Warwick, Bretlandi.
- 1997, MA próf í sagnfræði, Háskóli Íslands.
- 1999, MSt próf í sagnfræði, St. Antony’s College, University of Oxford, Bretlandi.
- 2003, PhD próf í sagnfræði, Queen Mary, University of London, Bretlandi.
Heiðursdoktorsnafnbót
- 2017, Queen Mary, University of London, Bretlandi.
- 2024, University of Oulu, Finnlandi.
Áherslur í rannsóknum
Utanríkis- og stjórnmálasaga Íslands á 20. öld og til okkar daga.
Í stuttu máli
Guðni Th. Jóhannesson var forseti Íslands árin 2016‒2024 og er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann fæddist í Reykjavík 26. júní árið 1968, sonur Margrétar Thorlacius, kennara og blaðamanns, og Jóhannesar Sæmundssonar, íþróttakennara og landsliðsþjálfara, sem lést árið 1983.
Í forsetakjöri sumarið 2016 hlaut Guðni 39,1% gildra atkvæða en 92,2% árið 2020 og naut einatt viðlíka stuðnings í skoðanakönnunum. Hann bauð sig ekki fram til endurkjörs árið 2024.
Í embættistíð sinni lagði Guðni áherslu á ýmis brýn samfélagsmál, ekki síst réttindi minnihlutahópa og algild mannréttindi. Einnig minnti hann á mikilvægi lýðheilsu og forvirkra aðgerða í heilbrigðismálum. Þá ræddi Guðni um nauðsyn þess að fagna heilbrigðri ættjarðarást, víðsýni og samkennd en berjast um leið gegn öfgakenndri þjóðernishyggju og hvers kyns fordómum. Loks vakti hann reglulega athygli á því að ljúka ætti þeirri gagngeru endurskoðun á stjórnarskrá Íslands sem lofað var við lýðveldisstofnun 1944. Í embætti var Guðni verndari ýmissa félagasamtaka hérlendis og „HeForShe Champion“ á vegum UN Women. Nánar má lesa um embættistíð Guðna á vefsíðu stjórnarráðsins.
Guðni er kvæntur Elizu Reid. Hún er fædd í Kanada og lauk prófgráðum í nútímasögu í Oxford og í alþjóðasamskiptum við Torontoháskóla. Guðni og Eliza hafa verið búsett hérlendis frá árinu 2003. Börn þeirra eru Duncan Tindur (f. 2007), Donald Gunnar (f. 2009), Sæþór Peter (f. 2011) og Edda Margrét (f. 2013). Guðni á dótturina Rut (f. 1994) með fyrri eiginkonu sinni, Elínu Haraldsdóttur, viðskiptafræðingi og listakonu.
Guðni lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Queen Mary við University of London árið 2003. Áður stundaði hann nám í því fagi við Oxfordháskóla, hlaut meistaragráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og BA-gráðu í sagnfræði og stjórnmálafræði við Warwick-háskóla á Englandi.
Að háskólanámi loknu sinnti Guðni ritstörfum, blaðamennsku og þýðingum og vann um skeið á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Auk þess var hann stundakennari við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst og University of London þegar hann var þar í doktorsnámi. Árin 2007‒2010 var hann lektor við Háskólann í Reykjavík og síðan sjálfstætt starfandi fræðimaður við ReykjavíkurAkademíuna. Árin 2013-2016 var Guðni kennari í sagnfræði við Háskóla Íslands, lektor, dósent og síðast prófessor.
Árin 2004‒2007 var Guðni formaður Sagnfræðingafélags Íslands, forseti Sögufélags 2011‒2015 og stjórnarformaður Þjóðskjalasafns Íslands 2015‒2016. Þá sat hann í ýmsum stjórnum, nefndum og ráðum.
Guðni hefur skrifað vinsæl og vel metin sagnfræðirit auk fjölda fræðigreina um sögu Íslands og samtíð. Hann hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín. Meðal annars hafa tvær bóka hans hafa verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og í Bretlandi hlaut hann virt verðlaun, The Julian Corbett Prize in Modern Naval History. Árið 2017 var hann sæmdur nafnbót heiðursdoktors við Queen Mary, University of London, og árið 2024 hlaut hann sömu nafnbót við Háskólann í Oulu í Finnlandi.
2024
- The Baltic way! Fyrirlestur á ráðstefnu í Riga í Lettlandi á vegum þjóðþingsings þar Saeima. 6. september 2024.
- Opið málþing um miðlun sögunnar. Stjórnun umræðu. Hugvísindastofnun, 26. september 2024.
- Útvarpsþing. Erindi á Útvarpsþingi í Útvarpshúsinu í Efstaleiti. 3. október 2024
- Ísland á stríðstímum. Fyrirlestur í bókasafni Garðabæjar. 10. október 2024
- Gengið til friðar. Erindi á ráðstefnu í Friðarhúsi í Reykjavík. 23. nóv. 2024
- Stjórnarmyndanir á Íslandi. Fyrirlestur í Snorrastofu í Reykholti í Borgarfirði. 1. desember 2024