Andmæli við doktorsvörn í Færeyjum

Hinn 1. nóvember varði Tráin Petursson Nónklett doktorsritgerð sína við sögu- og samfélagsdeild Fróðskaparseturs Færeyja. Ritgerðin nefnist „Vitan og stríð og stríð um vitan, ein kanning av føroyskari fiskiveiðufyrisiting, fiski og fiskifrøðingum, 1950‒1977.“ Í henni er fjallað um fiskveiðistjórnun, fiskveiðar og fiskifræði í landinu á því árabili. Ég var einn þriggja andmælenda. Í gagnrýni minni vék ég einkum að samanburði við sömu þætti á Íslandi og ræddi einnig um þá áhugaverðu spurningu hvaða máli það skipti í sambandi við fiskveiðilögsögu Færeyja að Danir fóru með utanríkis- og landhelgismál á meðan við Íslendingar réðum okkar eigin máli. Í andsvörum taldi Þráinn/Tráin það hiklaust hafa skipt máli og tók ég undir það með vísun í eigin doktorsritgerð.
            
Doktorsefnið stóðst vörnina með prýði og ætti ritgerð hans að vekja áhuga á Íslandi og víðar.
 
 
Á myndinni eru auk mín frá vinstri Erling Isholm, aðalleiðbeinandi, Kåre Nolde Nielsen andmælandi, dr. Tráin Petursson Nónklett og Erland Viberg Joensen, andmælandi og formaður doktorsnefndar. Erling og Erland eru við Fróðskaparsetrið og Kåre við Háskólann í Tromsö.